fbpx
Albert vefur

Humarsúpa meistaranna

Árið 1958 hófu Íslendingar að veiða humar, ef undan eru skildar tilraunir í smáum stíl á vegum Sölufélags íslenskra fiskframleiðenda rétt fyrir heimsstyrjöldina þar sem humar var veiddur til niðursuðu. Hinn smávaxni leturhumar sem lifir við Íslandsstrendur þykir vart ná máli sem humar í hugum sumra grannþjóðanna og er jafnvel kallaður Atlantshafs-rækja eða norskur humar. Hvort tveggja eru meiðandi uppnefni.

Útvegsmenn höfðu ekki fyrr náð tökum á að veiða leturhumarinn en að hugmyndaríkir matreiðslumenn fullkomnuðu íslensku humarsúpuna. Vellukkuð humarsúpa er heiðarleg og mikilsverð undantekning frá þeirri almennu reglu að súpa sé ekki matur. Þetta vissi hin vaska sveit Framara: fréttaritarinn, trymblarnir Kristján & Óskar og Ingvar Geiramaður sem skröltu í gegnum brennisteinsgufurnar til Grindavíkur. Að sitja í stúkunni á Grindavíkurvelli er ekki fyrir neinar gungur og stórhættulegt á fastandi maga. Því var stoppað á veitingastaðnum Bryggjunni, í gömlu netagerðarverkstæði og slafrað í sig heitri súpu og köldu bygg- og humlaseyði.

Á meðan á súpuátinu stóð fylgdist hersingin með gangi mála í kvennaleiknum fyrir austan. Illu heilli reyndust Austurlandströllin aðeins of stór biti. Framstelpur þurfa því að taka annað ár í neðstu deild, en framtíðin er björt og líklega bara betra þegar til lengri tíma er litið að taka skrefið upp í tveimur áföngum.

Um eittleytið datt leikskýrslan inn á KSÍ-vefinn og grunur hinna fjögurra fræknu var staðfestur um að róðurinn gæti orðið nokkuð þungur. Fyrir lá að Kyle og Gunnar væru í leikbanni. Fred meiddist á öxl um daginn og hóf leikinn á bekknum. Alex var uppi í stúku og Már hvergi sjáanlegur. Í þessum fjarvistum höfðu tveir leikmenn úr 3ja flokki verið kallaðir í hópinn.

Ólafur stóð vitaskuld í markinu en fyrir framan sig hafði hann nýtt miðvarðapar: Hlyn og Óskar. Halli var í sinni bakvarðastöðunni en hinu megin lék Aron Þórður. Í hans stað var Danny Guthrie kominn aftast á miðjuna með Indriða fyrir framan sig. Alexander og Albert á sitthvorum kanti og Þórir og Gummi Magg frammi.

Óþarf er að taka fram að það var hvasst í Grindavík. Heimamenn ekki sérlega fjölmennir enda tímabilið búið að einkennast af miklum vonbrigðum. Ætla má að Framarar hafi haft nauman meirihluta í stúkunni, en vantaði þó marga fastagesti. Því verður illa trúað að Framherjagengið ætli ekki að fylgja liðinu okkar alla leið upp í fyrirheitna landið? Þetta er ekki búið!

Hvítklæddir Framarar hófu leikinn með vindinn í fangið. Grindvíkingar byrjuðu þó leikinn mínútu fyrr en okkar menn og eftir fimmtíu sekúndur var Óli búinn að verja tvisvar eftir snarpa sókn heimamanna. Sem betur fór reyndist þetta ekki forsmekkur að því sem koma skyldi. Framarar tóku völdin í sínar hendur og stýrði öllu spili þrátt fyrir mótvind og áttu hverja sóknarlotuna á fætur annarri.

Þegar á fjórðu mínútu fór knötturinn í útrétta hönd eins Grindvíkingsins innan vítateigs og má ætla að flestir dómarar hefðu flautað á það ef aðeins lengra hefði verið liðið af leiknum. Á tíundu mínútu átti Haraldur góða sendingu á Albert inn í teig, hann lék nær marki en skotið fór beint á markvörðinn. Varnarmenn gulklæddra áttu í stöðugum vandræðum með Albert allan leikinn, eins og síðar verður vikið að.

Grindvíkingar léku fast og eftir innan við stundarfjórðung lá Aron Þórður á vellinum og virtist sárkvalinn. Þjálfarateymið brást hratt við, pantaði skiptingu og Jökull var kominn á hliðarlínuna þegar undrakælisprey Hilmars kom Aroni á lappir á ný.

Helstu færi Grindvíkinga voru föst langskot þar sem reynt var að nýta vindinn til að koma Ólafi í vandræði. Fæst þeirra rötuðu þó á markið, en hefðu getað reynst skeinuhætt. Hinu megin á vellinum fór meira fyrir samleik og spili. Um miðjan hálfleikinn á Danny frábæra sendingu inn á Albert sem náðu góðu skoti en markvörður Grindavíkur varði vel. Skömmu síðar var önnur sending Englendingsins nærri því að koma Þóri í upplagt færi. Pressan var að þyngjast.

Eftir um hálftíma leik tókst loks að brjóta ísinn. Albert skeiðaði inn í teig Grindvíkinga og var straujaður niður. Skagamaðurinn knái ákvað að taka vítið sjálfur, en hlustaði ekkert á háværar ábendingar fréttaritarans um að endurtaka Panenka-spyrnuna frá Eyjaleiknum. Það hefði hann þó betur gert því sá grindvíski varði. Það kom þó fyrir lítið því boltinn hraut aftur til Alberts sem lét hann syngja í þaknetinu, 0:1.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefði nú tappinn fokið af markafleygnum dýra, en glöggir lesendur hafa væntanlega þegar áttað sig á að ódámurinn Valur Norðri var hvergi nærri. Hann spanderaði víst öllum sínum útivistarleyfum í einhverri laxveiðiferð í vikunni. Það er mjög skrítin ráðstöfun á frítíma, einkum þar sem hægt er að kaupa lax í flestum betri fiskbúðum fyrir smotterí.

Framliðið var staðráðið í að lát hné fylgja kviði. Fimm mínútum eftir markið komst Haraldur í fínasta færi en náði ekki almennilegu skoti. Beint í kjölfarið var Guðmundur nánast búinn að vippa yfir markvörð andstæðinganna. Sami markvörður mátti hafa sig allan við að verja gott skot Guðmundar rétt undir lok hálfleiksins eftir flottan undirbúning Alexanders, sem var afbragðsgóður í leiknum.

Grindvíkingar stóðu fullkomlega undir væntingum með því að spila Sweet Home Alabama í hléi. Kaffið var fínt og heimamenn vinsamlegir. Það er ekki hægt annað en að bera mikla virðingu fyrir fótboltahefðinni í Grindavík og þótt pistlar fréttaritarans um ferðir þarna suðureftir hverfist yfirleitt um lýsingar á mannskaðaroki og mávageri, þá er þetta góður bær heim að sækja og upplifunin yfirleitt skemmtilegri en í sumum sálarlausu afstyrmunum sem kallaðir eru fótboltavellir sumstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi mætum við Grindavík oft á næstu árum… í bikarnum þó helst.

Seinni hálfleikur hófst og Framarar í stúkunni héldu áfram að berja bumbur, veita starfsmönnum leiksins þakkláta fræðslu um meginreglur knattspyrnuíþróttarinnar og koma með kurteislegar ábendingar um hverjum rétt væri að sýna gult spjald (Höskuldarviðvörun: það voru allt Grindvíkingar).

Líkt og fyrir hlé hófst leikurinn á því að Óli þurfti að verja frá hættulegasta manni Grindvíkinga í leiknum. Hann verður að sjálfsögðu ekki nafngreindur frekar en leikmenn andstæðinga yfirleitt í þessum pistlum, en viðkomandi hefur þó spilað bæði með Val og Þrótti.

Eins og áður svöruðu Framarar þessum dónaskap heimamanna með því að blása til sóknar sjálfir og mínútu síðar negldi Albert í stöng. Að þessu sinni voru okkar menn með vindinn í bakið og því sjálfsagt að nýta sér það. Spyrnur Óla frá markinu í fyrri hálfleik höfðu gengið misbrösulega en nú lék hann sér að því að negla yfir allan völlinn – dyggilega studdur af gárungunum fjórum fræknu, sem hvöttu hann eindregið til að láta vaða!

Á 50. mínútu átti Óli langa sendingu á Þóri sem virtist vera langt fyrir innan alla vörn Grindvíkinga. Ekkert flagg fór á loft. Þórir sendi á Alexander sem kom aðvífandi en varið var frá honum. Mínútu síðar nýttu Framarar sér á ný meðvitundarleysi heimamanna þegar þeir tóku aukaspyrnu hratt, Albert sendi á Þóri sem náði bylmingsskoti en naumlega yfir. Á þessum tímapunkti var Sigurb…. ehh, ónefndnum þjálfara Grindvíkinga nóg boðið og sendi hann allan varamannabekkinn til upphitunar.

Enn jukust vandræði drengjanna hans Guðbergs Bergssonar á 52. mínútu þegar Alexander átti sendingu á Albert sem var kominn í hálfgerða sjálfheldu upp við endamörk. Varð þá ekki betur séð en að okkar gamli liðsmaður Tiago frá Portúgal kæmi aðvífandi og ákvæði að spreyta sig á varnarleik með frjálsri aðferð. Albert fékk snertinguna og féll í teignum og dómarinn dæmdi réttilega víti. Albert  fór aftur á punktinn og skoraði af öryggi, 0:2.

Enn hélt Óli markvörður áfram að reyna sig við stoðsendingarnar. Á 57. mínútu átti hann frábæran bolta á Albert sem virtist ætla að fullkomna þrennuna, en var veifaður rangstæður. Þremur mínútum síðar virtist hann meiðast illa og aftur tók varamannabekkurinn að búa sig undir skiptingu, en kælispreyið góða bjargaði málunum. Sögur herma að Páll Matthíasson hafi falast eftir Hilmari og kælispreyinu til að létta mesta álaginu af bráðamóttökunni í næstu Covid-bylgju, þvílíkt undraefni sem þetta er!

Gummi Magg og Indriði áttu næstu góðu sókn Framara þegar um hálftími var eftir, en einn varnarmanna Grindavíkur náði að henda sér fyrir skot þess síðarnefnda á síðustu stundu. Þótt þessi lýsing kunni að virðast einhliða áttu heimamenn þó sína spretti. Sóknarlotur þeirra voru hins vegar langflestar brotnar á bak aftur af öflugri vörninni, þar sem Hlynur Atli átti frábæran leik og var mögulega maður leiksins. Ólafur var afbragðsgóður líka, en vill oft gleymast vegna yfirburða okkar í flestum viðureignum.

Þegar rúmlega stundarfjórðungur var eftir gerðu Framarar sínar fyrstu breytingar. Gummi og Alexander fóru af velli en inná komu Fred og Tryggvi. Til að fagna því átti Aron Þórður hörkuskot rétt framhjá eftir snarpa sókn. Allir virtust geta skorað, sem birtist best í því þegar Óli fór út úr vítateignum til að hreinsa frá marki, boltinn flaug yfir allan völlinn, skoppaði rétt fyrir framan markvörð andstæðinganna og var nærri hrokkinn yfir hann og í markið!

Fred var keyrður fruntalega í jörðina í návígi úti á miðjum velli þegar tíu mínútur voru eftir. Dómarinn dæmdi ekkert, nema jú gult spjald á Albert (sem vel að merkja var ALLS EKKI í hópi þeirra sem hjálplegir Framstuðningsmenn höfðu tilnefnt í svörtu bókina) fyrir mótmæli. Fred lenti illa á öxlinni meiddu og þurfti að yfirgefa völlinn talsvert kvalinn. Vonandi þýðir þetta ekki að hann missi af lokaleikjunum tveimur. Jökull leysti hann af hólmi og var vaskur og drífandi að venju.

Um það leyti sem venjulegur leiktími rann út gerði þjálfarateymið tvöfalda skiptingu á ný. Albert og Þórir komu út af og inná komu þeir Orri og Stefán Orri, strákur fæddur 2005, ferskur úr samræmdu prófunum. Lokamínúturnar urðu tíðindalitlar ef frá er talin góð rispa Tryggva upp kantinn sem endaði í dauðafæri en handboltavarsla Grindvíkingsins kom til bjargar.

Leiknum lauk með tveggja marka sigri og hreinu marki. Uppáhaldsuppskrift okkar á útivöllum í sumar. Fyrir leikinn var ljóst að sigur myndi þýða að deildarmeistaratitillinn væri í höfn. Alltaf gaman að næla í bikar. Með sigrinum jöfnuðum við líka stigamet Víkings frá Ólafsvík og höfum nú tvo leiki til að slá það. Ekkert lið hefur lokið keppni í tólf liða 1. deild með minna en tveimur tapleikjum, en dæmi eru um að lið hafi tapað engum eða einum leik í tíu liða deild. Það er því enn nóg af metum sem þarf að slá og ziggi-zöggum sem brýnt er að syngja.
Næsta stopp er Breiðholtið á móti Kórdrengjum næsta laugardag.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email