Albert Hafsteinsson hefur framlengt samning sinn við Fram til tveggja ára. Samningurinn gildir út keppnistímabilið 2023.
Albert hefur verið lykilmaður í sterku liði Fram frá því hann kom frá uppeldisfélagi sínu ÍA haustið 2019. Albert hefur leikið 48 leiki fyrir Fram og skorað í þeim 13 mörk. Hann lék frábærlega á nýliðinni leiktíð og varð markahæstur í Framliðinu með 10 mörk í 24 leikjum.
Frammistaða Alberts vakti verðskuldaða athygli og hann var vel að því kominn að vera valinn í lið ársins hjá fotbolti.net og í þáttunum Lengjudeildarmörkunum sem sýndir voru á Hringbraut í sumar. Albert var jafnframt valinn besti leikmaður deildarinnar í Lengjudeildarmörkunum.
Hinn 25 ára gamli Albert er afar útsjónarsamur og skapandi leikmaður. Hann hefur þess að auki bætt við mikilli markaskorun í sitt vopnabúr frá því hann gekk til liðs við Fram og er því orðinn illviðráðanlegur. Þrátt fyrir ungan aldur er Albert afar reynslumikill og hefur á sínum ferli leikið 74 leiki í efstu deild.
Knattspyrnudeild Fram er himinlifandi yfir því að hafa Albert áfram í sínum röðum og hlakkar til að fylgjast með honum leika listir sínar í bláa búningnum á næstu árum.