Knattspyrnudeild Fram hefur ráðið Anítu Lísu Svansdóttur og Óskar Smára Haraldsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára. Samhliða þjálfun meistaraflokks munu Aníta og Óskar sjá um þjálfun 4. flokks kvenna og koma að áframhaldandi uppbyggingu kvennaknattspyrnu innan félagsins.
Aníta Lísa var síðast aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá KR ásamt því að gegna stöðu yfirþjálfara yngri flokka og þjálfa 2. 3. og 4. flokk kvenna. Hún var áður aðstoðarþjálfari meistaraflokks ÍA og yngri flokka þjálfari.
Óskar Smári stýrði liði Tindastóls í Pepsi-Max deild kvenna á síðustu leiktíð. Hann var áður aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni og þjálfaði 2. og 3. flokk kvenna hjá félaginu.
Knattspyrnudeild Fram fagnar komu Anítu Lísu og Óskars Smára til félagsins og hlakkar til að fylgjast með frekari framþróun kvennaknattspyrnunnar undir þeirra leiðsögn.