1.722 áhorfendur voru mættir á nýjan glæsilegan knattspyrnuvöll Fram í Úlfarsárdal, mánudaginn 20. júní 2022. Mikil stemning var á vellinum, þegar Fram og ÍBV gerðu jafntefli, 3:3.
Guðmundur Magnússon, sem hefur skorað 9 mörk í úrvalsdeildinni, skoraði öll mörk Framara, á 2., 39. vítaspyrna og 49. mín. og varð þar með fyrstur til að setja þrennu á vellinum. Þess má geta til gamans að 16 leikmenn Fram hafa sett 18 þrennur í efstu deild Íslandsmótsins, en fyrstur til að afreka það var Björgvin Árnason, sem skoraði þrjú mörk gegn ÍA 1958, 4:6.
* Pétur Ormslev og Guðmundur Torfason tóku upphafsspyrnur leiks Fram og ÍBV; Pétur sendi knöttinn til Guðmundar, sem tók við knettinum. Þeir hafa báður skorað þrjú mörk í leik á Íslandsmótinu; Pétur gegn Þrótti 1980, 3:1. Guðmundur gegn FH 1986, 6:1. Þeir félagar hafa greinilega sent töframátt í skó Guðmundar.
* Það eru liðin 9 ár síðan Framari skoraði síðast þrjú mörk í leik í efstu deild; Hólmbert Aron Friðjónsson í leik gegn Þór, 4:1, 2013.
* Guðmundur var annar leikmaður Fram til að skora þrjú mörk gegn ÍBV. Hinn er Ásmundur Arnarsson, sem setti þrennu fyrir 21 ári, 2001 í Eyjum, 1:3.
* Framarar hafa skorað 18 þrennur í leikjum gegn: FH 3, ÍBV 2, ÍBA 2, KR 2 og einu sinni hjá ÍA, Víkingur, Selfoss, Fylkir, Valur, Þór, Ísafjörður, Þróttur R. og ÍBH.
* Grétar Sigurðsson hefur skorað flest mörk í leik. 4 gegn ÍBÍ á Ísafirði 1962, 6:0.
* Kristinn Jörundsson og Ásmundur Arnarsson hafa sett tvisvar þrennur í leik.
* Kristinn Jörundsson og Helgi Númason settu þrennur í sama leiknum, gegn ÍBA 1970, 7:1.
Texti: Sigmundur Ó. Steinarsson.
Mynd Fótbolti.net