fbpx
Gummi mark vefur

Að leiðarlokum

Árið 1994 mættust Svíar og Búlgarir í bronsverðlaunaleik heimsmeistaramótsins í Bandaríkjunum. Búlgarska liðið hafði komið öllum á óvart og meðal annars slegið úr leik sigurstranglegasta liðið, Þjóðverja, í fjórðungsúrslitunum. Þegar þarna var komið sögu virtist liðið hins vegar mett og í lokaleiknum fór öll orkan í að reyna að gera Hristo Stoichkov að markakóngi mótsins. Það mistókst. Stoichkov skoraði ekkert mark en andstæðingarnir fjögur. Frábært mót Búlgara fékk því frekar flatneskjulegan endi. Það dregur þó ekkert úr afrekinu sem enn er langstærsta stund búlgarska landsliðsins.

Hvers vegna er fréttaritari Framsíðunnar að rifja upp þessa löngu gleymdu sögu af viðureign minni Evrópuliða fyrir tæpum þremur áratugum í umfjöllun um lokaleik Íslandsmótsins 2022? Maður spyr sig…

Klukkan var ansi margt þegar fréttaritarinn brunaði út úr bænum um hádegisbilið á laugardegi – einn á ferð… skjaldsveinninn svikuli þóttist þurfa að horfa á afkvæmin sprikla í fótbolta og það í Víkingsbúningi, TURK-182! Við Straumsvík barst SMS frá Kristjáni Hnífsdalstrymbli sem var að snapa far. Af því að fréttaritarinn er meðvirkur og bóngóður sneri hann við á punktinum og brunaði aftur í Hlíðarnar til að sækja okkar allra besta Geirfugl. Á leiðinni suður með sjó kom í ljós hvers vegna félagi Kristján var svona sultuslakur. Hann var fullviss um að leikurinn væri klukkan tvö en ekki eitt…

Með bensíngjöfina í botni skaust Suzuki-jepplingurinn sem Fréttaritarinn hafði sníkt af láni frá föður sínum Þróttaranum (sem þykist í seinni tíð vera orðinn KR-ingum bara vegna þess að hann hefur búið við hliðina á KR-vellinum í 40 ár – hversu fíflaleg afsökun er það??) framúr öllum sleðum og aftaníossum á Reykjanesbrautinni. Það var samt enginn að fara að ná leiknum frá upphafi.

Internetið upplýsti um byrjunarliðið og þar lýgur fáu. Athygli vakti að Stefán Þór fékk að byrja á milli stanganna í stað Óla Íshólms. Hlynur og Dephin voru miðverðir. Óskar og Már bakverðir. Tryggvi og Indriði Áki á miðjunni, Maggi og Tiago á köntunum og Fred og Gummi Magg frammi. Stóru frávikin frá fyrri leikjum voru annars vegar fjarvera Janniks, sem var meiddur og Almarrs sem tók út leikbann. Rétt fyrir leikinn var tilkynnt að Almarr hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna. Við Framarar hljótum að þakka honum fyrir frábæra þjónustu á tveimur tímabilum – og sérstaklega minnumst við bikarmeistaratitilsins 2013 þar sem okkar allta besti og stysti maður skoraði besta skallamark sögunnar!

Það var markalaust í Vogunum. Það var markalaust við Grindavíkurafleggjarann. Það var markalaust við Kaffitársfabrikkuna í Ytri-Njarðvík. Við vorum augljóslega ekki að missa af neinu.

Um miðjan fyrri hálfleikinn renndu tvímenningarnir í hlað. Gengið var frá miðakaupum hratt og örugglega í gegnum Stubbinn og því næst gengið inn á vettvang „leiksins mikla“ árið 2008. Óinnvígðir vita kannski ekki hvað leikurinn mikli 2008 snerist um, en það var lokaleikur Íslandsmótsins þar sem Keflvíkingar ákváðu að henda frá sér Íslandsmeistaratitlinum með því að láta Framara sparka þéttingsfast í bæði nýrun og eyðileggja allt. Þetta var sérstök stund, þar sem 5000 Keflvíkingar grétu og 200 Framarar fögnuðu. Einhverra hluta vegna hefur þetta lið aldrei fyrirgefið þetta almennilega…

Fréttaritarinn og trumbuslagarinn tóku sér stöðu við hliðina á Almarri og  Brynjari Gauta sem upplýstu að Stefán markvörður hefði skömmu fyrr átt markvörslu tímabílsins eftir dauðafæri heimamanna. Keflvíkingar höfðu verið ákafari fram að þessu en Framliðið varist af krafti. Þvert gegn gangi leiksins blésu Framarar hins vegar til sóknar og Már sendi fyrir þar sem Gummi átti hörkuskot í hliðarnetið úr opnu færi. Mínútu síðar komst hann í gullið færi og negldi í þverslá Keflavíkurmarksins og niður – þar sem aðstoðardómarinn mat það sem svo að boltinn hefði ekki farið innfyrir. Keflvíkingar í hléinu hrósuðu happi yfir þeim úrskurði!

Tveimur mínútum síðar komst Keflavík yfir og þótt nokkur rangstöðulykt hafi verið á markinu verður ekki annað sagt en að það hafi verið verðskuldað. Tveimur mínútúm síðar mátti engu muna að staðan yrði 2:0 þegar Framliðið hafði allt sótt fram í hornspyrnu, misst boltann og heimamenn brunað fram. Framherji Keflavíkur komst einn á móti Stefáni sem varði, en boltinn barst aftur á Keflvíkinginn sem hafði allan tímann í heiminum til að vippa í tómt netið en gerði það ekki hönduglegar en svo að Stefán náði að verja!

Eins marks munur í hálfleik var ekki ákjósanleg staða en áhorfendur þó spakir – allt snerist jú um að Gummi Magg næði einu marki til að næla í gullskóinn! Orri Gunnarsson kom inná í hléi fyrir Indriða Áka.

Illu heilli komu Keflvíkingar miklu ákveðnari til leiks. Komust fljótlega í 2:0 og juku muninn í 3:0 eftir um klukutíma. Á þessum tíma hafði Framliðið gert ansi fátt fram á við, en varið þeim mun meiri tíma og orku í að tuða yfir dómgæslu. Þórir kom inná fyrir Magga rétt á undan markinu og var frískur þennan tíma sem hann fékk.

Áherslan á að Gummi skoraði var augljós. Hann hékk frammi og var langdvölum í rangstöðu og lá ekki á pirringi síunum þegar sendingar samherja rötuðu ekki rétta leið. Besta færið í seinni hálfleik kom þegar augljóslega var keyrt í bakið á Guðmundi inni í teig en ekkert dæmt. Keflvíkingar bættu við fjórða markinu en áfram freistuðu Framarar þess að láta Gumma skora eitt. Það tókst ekki.

Tapið í Keflavík var stórkostlegt anítklímax í lokin á frábæru tímabili. Níunda sætið varð niðurstaðan eftir leiktíð þar sem allir sérfræðingar spáðu okkur langneðsta sætinu og algjörum hrakförum fyrir tímabilið, en raunin varð sú að Fram bauð upp á eitthvert allra skemmtilegsa sóknarlið landsins og gerði nýjan heimavöll að torsóttu vígi nánast frá byrjun. Þetta var frábært tímabil. Fréttaritarinn þakkar fyrir sig og bíður spenntur til vors.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!