Karen Dögg Hallgrímsdóttir hefur skrifað undir sinn fyrsta meistaraflokkssamning.
Karen er miðjumaður, fædd 2008 og er uppalin í Fram. Hún hefur lengi verið einn allra efnilegasti ungi leikmaður félagsins og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, æft reglulega með meistaraflokki síðustu tvö ár og staðið sig með mikilli prýði. Hún gerir þriggja ára samning við liðið og mun því að lágmarki verða hjá félaginu út árið 2025.
Þessi samningur er auðvitað stórt skref fyrir Kareni en ekki síður fyrir félagið, þar sem hann er til vitnis um þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í knattspyrnudeild Fram síðustu ár, þar sem kvenkyns iðkendum yngri flokka fjölgar ört og uppaldir leikmenn sjá fyrir sér spennandi framtíð innan félagsins. Við bindum vonir við að mun fleiri uppaldir leikmenn muni láta að sér kveða í meistaraflokki félagsins á næstu árum og höfum fulla trú á að svo verði miðað við glæsilegan efnivið í yngri flokkum.
Við óskum Kareni innilega til hamingju með fyrsta samninginn og hlökkum mikið til að sjá hana blómstra áfram í bláu treyjunni.